Heimasíða brúðuleikhússamtakann

Samtök brúðuleikara hafa opnað nýja heimasíðu www.unima.is
Þar er að finna upplýsingar um öll brúðuleikhús á landinu og viðburði sem samtökin standa fyrir. Nú síðast var haldin fjölskylduhátíð í Gerðubergi sem var afar vel heppnuð.

Spennandi brúðuleikari

Í Víðsjá í gær var skemmtilegt viðtal sem Sigríður Sunna tók við Eric Sanko tónlistarmann og brúðuleikara. Sigríður Sunna segist hafa séð magnað tón-og brúðuverk í New York á dögunum eftir listamanninn Erik Sanko og tók hann tali fyrir Víðsjá.
Hægt er að nálgast viðtalið á þessari slóð:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/live/

(smellið á Víðsjá)

.
Þið getið séð myndir af brúðum Sankos hér:

http://www.eriksanko.com/

og hlustað á brot úr tónlistinni hans hér:

http://www.myspace.com/eriksanko


Alþjóðleg brúðuleikhússamtök endurvakin á Íslandi

Blásið var nýju lífi í Alþjóðleg samtök brúðuleikhúsfólks á Íslandi (UNIMA á Íslandi) nú á dögunum og kosið í nýja stjórn.
UNIMA (Union International de la Marionette) eru samtök brúðuleikhúsfólks um allan heim og voru upphaflega stofnuð í Prag árið 1929. Deild samtakanna á Íslandi var stofnuð sumarið 1975.Samtökin voru mjög virk um langt skeið en hafa legið niðri undanfarin ár.

Leikbrúðulist er ævaforn listgrein og á rætur sínar að rekja allt aftur til trúarathafna Forn-Egypta. Hún hefur að sjálfsögðu þróast í gegnum árin og í Evrópu hefur myndast rík hefð á þessu sviði og sagan þar er orðin það löng að hægt er að merkja hvernig einn isminn hefur tekið við af öðrum.Listgreinin á sér hins vegar afar stutta sögu hér á Íslandi. Þó hefur á undanförnum fimmtíu árum vaxið upp gróskumikið Íslenskt brúðuleikhús. Starfsemi þessara leikhopa fer kannski ekki mjög hátt í fjölmiðlum en á allra síðustu árum hefur verið hægt að merkja vaxandi áhuga á listgreininni.

Hlutverk UNIMA á Íslandi er að hlúa að þessari ungu listgrein á Íslandi og skapa henni frjóan jarðveg. Fyrsta verk nýkjörinnar stjórnar UNIMA á Íslandi er að setja upp heimasíðu sem mun gera öllum kleift að nálgast hvers kyns fróðleik og upplýsingar um brúðuleikhús á Íslandi og setja það jafnframt í alþjóðlegt samhengi.
Fljótlega mun UNIMA á Íslandi koma sér upp heimasíðu en þangað til er hægt að kíkja á http://myspace.com/unimaiceland

Stjórnin UNIMA mynda Sigríður Sunna Reynisdóttir (formaður), Helga Arnalds (ritari), María Björk Steinarsdóttir (gjaldkeri), Bernd Ogrodnik (meðstjórnandi) og Katrín Þorvaldsdóttir (meðstjórnandi).


UM BRÚÐULEIKHÚS

Við lifum á tímum sem einkennast af nálgun, samruna og hverfandi landamærum og eru stundum kenndir við postmodernisma. Lönd og heimsálfur eru ekki lengur heimur út af fyrir sig og það sama má segja um hinar ýmsu listgreinar. Það má allt – blanda saman nýju og gömlu, rímuðu og órímuðu, akrýl og olíu, myndlist, orðum, tónlist, leiklist og dansi. Allar greinar listarinnar hafa orðið fyrir áhrifum af þessum straumum, enda er markmiðið einfaldlega að nota þann miðil sem hentar hverri hugmynd best. Og upp úr þessum potti birtist ýmislegt óvænt og ferskt.

Brúðuleikhús er sú listgrein sem kannski hefur orðið fyrir mestum breytingum á stuttum tíma. Í Austur- og Suður Evrópu hefur myndast rík hefð á þessu sviði og sagan þar er orðin það löng að hægt er að merkja hvernig einn isminn hefur tekið við af öðrum. Það giltu lengi ströng, óskráð lög um hvað var brúðuleikhús og hvað ekki. T.d. var litið á það sem fúsk eða stórslys - ef ekki beinlínis klúrt - ef sást í brúðustjórnanda og ýmsir supu hveljur af hneykslun þegar leikararnir komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir 30 árum og fóru að taka beinan þátt í leiknum. Menn skiptust í tvær fylkingar og hættu jafnvel að heilsast.

En þetta skref fram fyrir skerminn leysti nýja krafta úr læðingi og kom af stað spennandi ferli. Nú er ekki lengur nóg að hugsa sem svo – ég ætla að nota brúðu af því ég er brúðuleikari. Í öllu sköpunarferlinu þurfa menn sífellt að spyrja sig sömu spurningar: Bætir brúðan einhverju við? Getur leikari komið þessari tilfinningu betur til skila?

Hvert tímabil á sér sínar forsendur og það var sú tíð að brúða sem hreyfðist, að því er virtist af sjálfu sér, var galdri líkust, en í dag – á tímum tölvunnar - er galdurinn fólginn í öðru en hreyfitækni brúðunnar. Nú er kveikjan að galdrinum fólginn meira í sambandinu milli brúðu og leikara. Milli efnis og anda. Landamæri milli brúðuleikhúss og annarra listgreina verða sífellt óskýrari og að sama skapi verða möguleikar þess ótakmarkaðri.

Myndmál er að sækja á gagnvart orðinu og leiksýningar smám saman að verða myndrænni. Snertipunktur myndlistar og leiklistar er að verða meira áberandi í einhverskonar gjörningum og myndböndum. Þar má m.a. nefna myndlistarmenn eins og Matthew Barney og hér á landi Gabríelu Friðriksdóttur og Ragnar Kjartansson. Einmitt á þessum snertipunkti leiklistar og myndlistar er þessi tegund af leiklist – brúðuleikhús.

Hér hefur á undanförnum fimmtíu árum vaxið upp gróskumikið brúðuleikhús. Alls hafa gegnum árin orðið til átta brúðuleikhópar sem hafa starfað lengri og skemmri tíma og margir hverjir unnið ágæta sigra

Á Íslandi er saga brúðuleikhúss samt ekki nógu löng til að hægt sé að tala um hefðir. Þetta hefðaleysi hefur bæði sína kosti og sína galla. Kostirnir eru þeir að engum dettur í hug að hneykslast á nýjungum. Kannski í og með vegna þess að hinn venjulegi áhorfandi veit ekki einu sinni hvað er gamalt og margtuggið á þessu sviði og hvað er nýtt. Við getum þess vegna alveg leyft okkur að hoppa yfir mörg þrep á leiðinni upp stigann og tekið okkur stöðu þar sem við viljum.

Ókostirnir eru hins vegar þeir að íslenskir áhorfendur hafa ekki alist upp við myndmál og það hefur áhrif á getu þeirra til að njóta myndrænna leiksýninga. Þó virðist það vera að breytast með tölvukynslóðinni sem reyndar hefur því miður ekki yfirþyrmandi áhuga á leiklist.

Ef brúðuleikhús á Íslandi á að ná að standa jafnfætis öðrum listgreinum í hugum áhorfenda er mikið verk óunnið og nauðsynlegt að bretta upp ermarnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband